Sjálfbærni

Stefnur

Grænir leigusamningar

Bæklingar og skýrslur

Umhverfisvottanir fasteigna

Hafðu samband

Frétt­ir

Sérfræðingur í greiningum og fjárfestingum

19.11.2024

Heimar leita að metnaðarfullum einstaklingi í starf sérfræðings í greiningum og fjárfestingum á fjármálasviði félagsins. Viðkomandi mun starfa í fjölbreyttum verkefnum í samstarfi við fjármálastjóra Heima og aðra stjórnendur.

Helstu verkefni og ábyrgð
  • Greiningar á fjárfestingakostum og verðmöt
  • Gerð kynningargagna og miðlun upplýsinga
  • Arðsemisútreikningar
  • Ýmsar rekstrargreiningar
Menntunar- og hæfniskröfur
  • Menntun sem nýtist í starfi, svo sem á sviði fjármála, viðskiptafræði, hagfræði, verkfræði eða sambærilegt
  • Reynsla af sambærilegu starfi
  • Góð greiningarhæfni og brennandi áhugi á viðskiptum
  • Hæfni til að miðla upplýsingum á skilvirkan hátt
  • Metnaður, frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð
  • Góð hæfni í mannlegum samskiptum

Við erum annað og meira.

Heimar er leiðandi fasteignafélag á Íslandi og er byggt á sterkum grunni. Við sköpum virði fyrir samfélagið, mótum borgarkjarna sem dafna og greiðum leiðina að sjálfbærri framtíð fyrir komandi kynslóðir.

Hjá Heimum starfa um 75 manns við fjölbreytt störf og leggjum við áherslu á að tryggja velferð, vellíðan og öryggi starfsfólks. Félagið hefur í gildi jafnlauna- og jafnréttisstefnur ásamt jafnlaunakerfi sem fyrirbyggir beina og óbeina mismunun vegna kyns. Við ráðningar er leitast við að jafna hlutföll kynjanna að uppfylltum hæfniskröfum.

Umsóknarfrestur er til og með 25. nóvember.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Gyða Björk Bergþórsdóttir, mannauðsstjóri, gydab@heimar.is

Sækja um starf hér.

Skoða nánar

Heimar styðja íslenska tungu

16.11.2024

Í dag, á degi íslenskrar tungu, setjum við hjá Heimum í loftið glænýtt og ótrúlega skemmtilegt verkefni sem hefur fengið nafnið Orðheimar.

Orðheimar er samfélagsverkefni Heima og fyrsta skrefið í nýrri vegferð félagsins þar sem við munum styðja og styrkja íslenska tungu á ýmsa vegu.

Við vitum að íslenskan á undir högg að sækja og sumir vilja jafnvel ganga svo langt að segja að okkar ástkæra, ylhýra berjist fyrir lífi sínu. Með Orðheimum viljum við auka málvitund, leika okkur að málinu og styrkja íslenskuna vítt og breitt um samfélagið.

Í þessum fyrsta fasa er verkefnið skýrt og afmarkað. Við ætlum einfaldlega að bæta orðaforða þjóðarinnar, bæði þeirra sem fæddust hér og þeirra sem flutt hafa til landsins. Á íslensku eigum við ótal orð yfir sömu hlutina, en mörg þeirra eru ýmist lítið notuð eða hreinlega gleymd og grafin í orðabókum. Við viljum rifja þau upp, enda er ríkt og lifandi tungumál undirstaða góðra samskipta, skilnings og heilbrigðs samfélags. Með því að styrkja stoðir tungumálsins erum við að fjárfesta í framtíð íslenskunnar og þjóðarinnar allrar, ekki bara á degi íslenskrar tungu heldur til frambúðar.

Ef þið rekist á Morgunblaðið í dag finnið þið þar skemmtilega opnuauglýsingu í formi krossgátu um verkefnið frá okkur, en að auki birtum við auglýsingar á samfélagsmiðlum, í útvarpi, á vefmiðlum og skjám. Þá merkjum við kjarnana okkar, Smáralind, Hafnartorg og Egilshöll, með skemmtilegum límmiðum þar sem við sýnum fólki óalgeng nöfn þeirra hluta sem miðarnir eru á og vísum á samheiti þeirra.

Í þessum fyrsta fasa viljum við segja með skýrum hætti að Heimar hyggist styðja við íslenska tungu til frambúðar. Til hamingju með daginn og áfram íslenska!

Skoða nánar

Verkefnastjóri í framkvæmdateymi óskast

8.11.2024

Heimar leita að reyndum verkefnastjóra í framkvæmdateymi félagsins. Í boði er fjölbreytt og lifandi starf í góðum og samheldnum hópi. Í starfinu gefast tækifæri til að vinna að spennandi framkvæmdaverkefnum bæði á undirbúnings- og framkvæmdastigi.

Helstu verkefni og ábyrgð:

  • Verkefnastjórnun byggingaframkvæmda
  • Undirbúningur, áætlanagerð, skipulagning, eftirfylgni og frávikagreininga framkvæmdaverkefna
  • Öflun og utanumhald tæknilegra gagna sem snúa að eignasafni Heima
  • Samskipti við viðskiptavini, leigutaka, verktaka og ráðgjafa

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Meistarapróf í verkfræði eða önnur sambærileg menntun sem nýtist í starfi
  • Að minnsta kosti 5-7 ára starfsreynsla sem nýtist í starfi
  • Góð greiningarhæfni og hæfni til að miðla upplýsingum á skilvirkan hátt
  • Frumkvæði, metnaður og sjálfstæð vinnubrögð
  • Framúrskarandi samskiptahæfni

Við erum annað og meira.

Heimar er leiðandi fasteignafélag á Íslandi og er byggt á sterkum grunni. Við sköpum virði fyrir samfélagið, mótum borgarkjarna sem dafna og greiðum leiðina að sjálfbærri framtíð fyrir komandi kynslóðir.

Hjá Heimum starfa um 75 manns við fjölbreytt störf og leggjum við áherslu á að tryggja velferð, vellíðan og öryggi starfsfólks. Félagið hefur í gildi jafnlauna- og jafnréttisstefnur ásamt jafnlaunakerfi sem fyrirbyggja beina og óbeina mismunun vegna kyns. Við ráðningar er leitast við að jafna hlutföll kynjanna að uppfylltum hæfniskröfum.

Umsóknarfrestur er til og með 25. nóvember.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Gyða Björk Bergþórsdóttir, mannauðsstjóri, gydab@heimar.is

Sækja um hér.

Skoða nánar

Kjarnar Heima halda áfram að styrkjast

31.10.2024

Fjölbreytt úrval þjónustu og verslana í kjörnum Heima er sífellt að verða meira og erum við stolt af því að sjá kjarnasvæðin vaxa.

Silfursmári

Smárinn í Kópavogi er miðja höfuðborgarsvæðisins og er svæðið einn af lykilkjörnum félagsins. Í Smáranum hafa Heimar þróað fjölbreytta blöndu húsnæðis fyrir verslanir, veitingastaði, afþreyingu og skrifstofuhúsnæði. Silfursmári er nýjasta viðbótin við Smárasvæðið en þar bjóða Heimar til leigu nútímaleg og einstaklega vel staðsett verslunar- og þjónusturými rétt við Smáralind.

Nýlega hafa spennandi rekstraraðilar opnað í Silfursmára, þar á meðal My Letra, By Lovisa, Hobby og Sport auk ferðaþjónustunnar Verdi og hárstofan Scandi opnar í desember.

Smáralind

Fleiri spennandi rekstaraðilar bætast við í Smáralind en tískuvöruverslunin Gina Tricot opnar á morgun 1. nóvember og seinna sama mánuð opnar beyglustaðurinn Bagel 'n' Co, íþróttabúðin Jói Útherji og Bacco, ítalskur Pop-up veitingastaður.

Hafnartorg

Hafnartorg er verslunar- og þjónustukjarni í hjarta miðborgar Reykjavíkur þar sem hægt er að nálgast úrval af þekktum alþjóðlegum vörumerkjum og veitingastöðum. 

Í byrjun nóvember mun Thomsen Reykjavík opna á Hafnartorgi en um ræðir heimili fíns klæðskera í hjarta Reykjavíkur. Gamla bókabúðin opnar svo á Hafnarstræti á nýju ári en verslunin hefur verið í rekstri á Flateyri frá árinu 1914 og er því elsta upprunalega verslun landsins.

Egilshöll

Egilshöll hefur þróast í sterkan og fjölbreyttan afþreyingarkjarna þar sem fjölskyldur og einstaklingar á öllum aldri geta fundið skemmtun og hreyfingu í fyrsta flokks aðstöðu.

Síðasta vor opnaði rafíþróttasalurinn Next Level Gaming í Egilshöll. Þau bjóða upp á hágæða þjónustu, VR svæði, einkaherbergi og stór PC, Playstation og Nintento svæði.
Golfsvítan er svo nýjasta viðbótin í Egilshöll sem opnar á næstu vikum en þar geta einstaklingar og hópar komið og spilað golf saman eða stundað golfæfingar í ró og næði við frábærar aðstæður allt árið.


Þessi viðbót á kjarnasvæðum Heima mun efla það góða starf sem þegar er til staðar og stuðla að enn betri upplifun fyrir viðskiptavini.

Skoða nánar

Áslandsskóli hlýtur BREEAM In-Use vottun með “Very Good“ einkunn

25.10.2024
Áslandsskóli hefur hlotið BREEAM In-Use vottun með einkunnina „Very Good“. BREEAM In-Use er umhverfisvottun fyrir eignir í rekstri sem stuðlar að sjálfbærni, orkusparnaði og umhverfisvænum rekstri. 
BREEAM vottunarferlið er eitt það víðtækasta á heimsvísu sem staðfestir að byggingar uppfylli strangar kröfur um sjálfbærni.

Þegar fasteign er vottuð eru ýmsir þættir rekstrar metnir, sem gefur fyrirtækinu yfirsýn yfir mögulegar umbætur og aðgerðir sem auka virði gagnvart starfseminni, umhverfinu og rekstrinum. Slíkar aðgerðir leiða m.a. til lægri rekstrarkostnaðar í formi minni orkunotkunar og lægra kolefnisfótspors. Vottunin staðfestir að eigandi fasteignarninnar hefur sjálfbærni að leiðarljósi og er staðráðinn í að stuðla að bættri samfélagsábyrgð. Aukin sjálfbærni byggingarinnar eykur þannig bæði hagsæld og rekstrarlegan ávinning.

Umhverfisvottanir fasteigna gegna lykilhlutverki í að draga úr þeim neikvæðu umhverfisáhrifum sem fasteignir félagsins hafa. Með þeim er hægt að greina helstu áhættur sem hver bygging skapar fyrir umhverfið, auk þess sem þær eru staðfesting þriðja aðila á því að rekstraraðili fylgi bestu mögulegum stöðlum í fasteignarekstri. Þær auðvelda einnig upplýsingagjöf til leigutaka varðandi mikilvæga rekstrarþætti, eins og orkunotkun og sorpflokkun, sem er stöðugt vaxandi eftirspurn eftir.

Frá því að Heimar hlutu sína fyrstu BREEAM-In-Use vottun árið 2019 á stærstu eign félagsins, Smáralind, hefur fyrirtækið unnið markvisst að því að votta eignasafn sitt. Að jafnaði er ein ný fasteign vottuð á ári og ein endurvottuð, þar sem allar eignir þurfa að fara í endurvottun á þriggja ára fresti.
Í ár, auk Áslandsskóla, hlaut Katrínartún endurvottun og unnið var að vottun á Dvergshöfða 2. Einnig er beðið eftir endurvottun á Borgartún 8-16. Í fyrra fengu Egilshöll vottun og Smáralind endurvottun.
Skoða nánar

Heimar selja fimm fasteignir utan kjarnasvæða

4.10.2024
Heimar hafa samþykkt kauptilboð Módelhúsa ehf. í fimm fasteignir. Fasteignirnar eru staðsettar utan skilgreindra kjarnasvæða Heima og samræmist sala þeirra stefnuáherslum félagsins.

Fasteignirnar sem um ræðir eru að Eyrartröð 2a, Norðurhellu 10 og Reykjavíkurvegi 74, Hafnarfirði, auk fasteigna að Vatnagörðum 6 og Vatnagörðum 8, Reykjavík. Heildarfermetrafjöldi fasteignanna er 8.962 m2.

Söluverð eignanna er samtals 3.275 milljónir kr. og er áætlaður söluhagnaður 351 milljón kr. Núverandi leigutekjur eignanna nema um 250 milljónum kr. á ársgrundvelli. Söluandvirðið verður nýtt til fjárfestinga í samræmi við fjárfestingastefnu félagsins.

Kauptilboðið er háð hefðbundnum fyrirvörum, m.a. um ástandsskoðun og fjármögnun. Áætlað er að kaupsamningar um fasteignirnar verði undirritaðir eigi síðar en í nóvember 2024.
Skoða nánar