Heimar er fasteignafélag sem fjárfestir í, leigir út og annast rekstur á atvinnuhúsnæði á Íslandi. Félagið er hlutafélag í dreifðu eignarhaldi og skráð í Kauphöll Íslands.

Stefna Heima hvað varðar staðsetningu og kröfur til eigna félagsins er skýr. Félagið hefur lagt áherslu á að þétta og efla skilgreind kjarnasvæði sem eru meðal annarra: Smáralindarsvæðið, miðbær Reykjavíkur, Borgartún og miðbær Garðabæjar. Nú þegar eru 65% af fermetrum í eignasafni Heima  sem telja um 70% af virði alls eignasafnsins staðsettir í skilgreindum kjörnum.

Fasteignasafn Heima telur um 100 fasteignir og er heildarstærð safnsins tæplega fjögur hundruð þúsund fermetrar. Virði eignasafnsins er um 180 m.kr. Fjöldi leigutaka er um 425 og er útleiguhlutfall í eignasafninu 97%.

Starfsfólk starfar á fimm starfsstöðvum við fjölbreytt störf og hefur starfsánægja aldrei mælst meiri. Með því að leggja áherslu á velferð og öryggi starfsfólks ásamt jafnrétti, mannréttindum, jöfnum launum kynja, heilsuvelferð og þekkingaröflun starfsfólks trúum við því að Heimar sé góður og eftirsóknarverður vinnustaður.

Rík áhersla hefur verið lögð á sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð og hafa nú 36% af eignasafni félagsins hlotið umhverfisvottunina BREEAM In-use. Heimar telja sjálfbærar áherslur fyrirtækja vera einn af lykilþáttunum í rekstri þeirra og forsenda fyrir velgengni til framtíðar. Við trúum því að með sjálfbærni að leiðarljósi verði til ný viðskiptatækifæri og félagið verði samkeppnishæfara.