Sjálfbærni

Stefnur

Grænir leigusamningar

Bæklingar og skýrslur

Umhverfisvottanir fasteigna

Sjálfbærnistefna

Hafðu samband

VÍS tryggir Reginn fasteignafélag

5.12.2014

Samið hefur verið um að VÍS tryggi Reginn fasteignafélag og dótturfélög þess til næstu þriggja ára. Reginn leitaði tilboða hjá öllum helstu tryggingafélögum landsins og gekk í kjölfarið til samninga við VÍS.  

 „Reginn er með margar og stórar fasteignir á sínum snærum og við fögnum því að fá þetta kraftmikla félag í hóp okkar viðskiptavina,“ segir Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri VÍS. „Samningurinn felur meðal annars í sér virkt samstarf í öryggis- og forvarnamálum þar sem sérfræðingar VÍS verða til ráðgjafar. Allir hafa hagsmuni af því að vel takist til og við leggjum mikið upp úr því.“

 „Starfsemi okkar er umfangsmikil því Reginn er með stórt og verðmætt fasteignasafn þar sem margþætt og viðamikil starfsemi á sér stað, þar á meðal Smáralind og Egilshöll. Ég bind miklar vonir við samstarfið og áherslur VÍS í forvörnum eiga án efa eftir að koma Regin sem og viðskiptavinum okkar til góða,“ segir Helgi S. Gunnarsson forstjóri Regins.

Reginn hf. er íslenskt fasteignafélag sem fjárfestir í, leigir út og rekur atvinnuhúsnæði. Fasteignasafn fyrirtækisins telur 54 fasteignir og er heildarfermetrafjöldi þeirra um 223 þúsund. Félagið er hlutafélag í dreifðu eignarhaldi og skráð í Kauphöll Íslands.


VÍS er stærsta tryggingafélag landsins og býður alhliða tryggingalausnir fyrir einstaklinga, fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir. Fyrirtækið er skráð í Kauphöll Íslands og er í dreifðu eignarhaldi. VÍS starfrækir þjónustuskrifstofur víðsvegar um land og starfa um 200 manns hjá fyrirtækinu.