Sjálfbærni

Stefnur

Grænir leigusamningar

Bæklingar og skýrslur

Umhverfisvottanir fasteigna

Sjálfbærnistefna

Hafðu samband

Verslunarmiðstöðin Smáralind til sölu (uppfært 17. maí)

14.2.2012

Reginn ehf. dótturfélag Landsbankans (NBI hf.) hefur falið Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans að annast sölu á öllu hlutafé í Eignarhaldsfélaginu Smáralind ehf. sem á og rekur verslunarmiðstöðina Smáralind í Kópavogi.

Seljandi hlutafjárins er Fasteignafélag Íslands ehf. sem er í eigu Regins ehf. Fasteignafélag Íslands hefur átt í fjárhagserfiðleikum, en efnahagur Eignarhaldsfélagsins Smáralindar ehf. er og hefur verið traustur.

Verslunarmiðstöðin Smáralind var opnuð árið 2001 og hefur frá stofnun verið mikilvægur þáttur í verslun á Íslandi. Smáralind er stærsta verslunarmiðstöð landsins og telur 62.730 fermetra og þar af nýtast 40.490 fermetrar undir verslun. Heildarfjöldi verslana og þjónustufyrirtækja er 95 og árið 2009 komu í Smáralindina um 4 milljónir viðskiptavina. Í Smáralindinni má finna flestar tegundir verslana, matvöruverslanir, tískuvöruverslanir, gjafa- og skartgripaverslanir, veitingastaði, kvikmyndahús og margvíslega aðra þjónustu.

Starfsemi Eignarhaldsfélagsins Smáralindar felst í útleigu, rekstri, viðhaldi og uppbyggingu verslunarmiðstöðvarinnar Smáralindar. Kaupandinn verður einn eigandi húsnæðisins.

Söluferlið hófst 28. apríl 2010 og er opið öllum áhugasömum fjárfestum, sem standast hæfismat og sýnt geta fram á fjárfestingargetu umfram 500 milljónir króna. Þeim fjárfestum sem óska eftir að taka þátt í söluferlinu, ber að fylla út trúnaðaryfirlýsingu, veita upplýsingar vegna hæfismats og fullnægjandi staðfestingu á áðurnefndri fjárfestingargetu.

Tilboðsferlið er tvískipt

Þeir fjárfestar sem uppfylla skilyrði fyrir þátttöku á fyrra stigi söluferlisins fá afhent gögn um Eignarhaldsfélagið Smáralind ehf. föstudaginn 28. maí 2010. Frestur til að skila óskuldbindandi tilboði rennur út kl. 16:00, 16. júní 2010. Tilboð verða opnuð í viðurvist óháðs aðila.

Þeim sem leggja fram hagstæðustu tilboðin að mati seljanda og Fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans, verður boðið að taka þátt í síðara stigi söluferlisins sem áætlað er að hefjist þann 21. júní og ljúki 12. júlí 2010 með skilum fjárfesta á bindandi tilboði. Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans gengur þá fyrir hönd seljanda til samninga við tilboðsgjafa. Stefnt er að lokum söluferlisins fyrir lok júlí 2010.

Rétt er að ítreka að seljandi, Fasteignafélag Íslands ehf., áskilur sér rétt til að hafna öllum tilboðum, breyta söluferlinu og/eða stöðva eftir atvikum. Öllum þátttakendum verður tilkynnt um slíka ákvörðun og rökstuðning fyrir henni.

Markmið Fasteignafélags Íslands ehf. er að fá sem hagstæðast verð fyrir hlutafé Eignarhaldsfélags Smáralindar ehf. og að salan sé endanleg og óafturkræf.

Fjárfestar geta sent fyrirspurnir um söluferlið og þátttöku á netfangið: smaralind@landsbankinn.is

Skjöl er varða söluferlið eru á ensku. Eftirfarandi eru skjöl er fyrir fjárfesta er hafa áhuga á þátttöku í söluferlinu:

Trúnaðaryfirlýsing
Hæfismat
Ársreikningur 2009 - Eignarhaldsfélagið Smáralind ehf
Stutt kynning á Eignarhaldsfélaginu Smáralind ehf

Vinsamlega athugið að skjalið "Stutt kynning á Eignarhaldsfélaginu Smáralind ehf." var uppfært þann 17. maí í kjölfar þess að seljandi hefur ákveðið að gefa bjóðendum kost á því að bjóða einnig í lóðir sem eru í hans eigu og eru aðliggjandi Smáralind.

Ofangreindum upplýsingum skal skilað í lokuðu umslagi til Fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans, Hafnarstræti 5, 155 Reykjavík, merkt; Söluferli-Smáralind og á tölvutæku formi á netfangið smaralind@landsbankinn.is fyrir kl. 16:00 þriðjudaginn 25. maí 2010.