Sjálfbærni

Stefnur

Grænir leigusamningar

Bæklingar og skýrslur

Umhverfisvottanir fasteigna

Sjálfbærnistefna

Hafðu samband

Söluferli Smáralindar lokið

14.2.2012

Söluferli á öllu hlutafé í Eignarhaldsfélaginu Smáralind ehf. sem á og rekur verslunarmiðstöðina Smáralind í Kópavogi er lokið. Ekkert viðunandi tilboð barst í hlutaféð að mati stjórnar Fasteignafélags Íslands hf., eiganda hlutafjárins. Reginn ehf., dótturfélag Landsbankans, er eini hluthafi Fasteignafélags Íslands.

Rekstur verslunarmiðstöðvarinnar hefur gengið vel það sem af er ári og staðið undir væntingum Fasteignafélags Íslands hf. Handbært fé frá rekstri nam 195 milljónum króna fyrstu sex mánuði ársins og hagnaður sama tímabils var 255 milljónir króna. Rekstur Smáralindar verður áfram með sama sniði og verið hefur en ljóst er jafnframt að vilji eigenda stendur til að selja Eignarhaldsfélagið Smáralind ehf. þegar hagstæðari skilyrði skapast.

Söluferlið hófst með auglýsingu í apríl og var það opið öllum áhugasömum fjárfestum sem sýnt gátu fram á fjárfestingargetu að upphæð 500 milljónir króna auk þess sem lýsa þurfti reynslu og þekkingu af sambærilegum viðskiptum. Fjölmargir fjárfestar sýndu málinu áhuga, bæði innlendir og erlendir en margir þeirra drógu sig þó til baka þegar á leið á söluferlið og báru m.a. við óvissuástandi í íslenskum efnahagsmálum.

Söluferlinu var skipt í tvennt. Á fyrra stigi fengu fjárfestar aðgang að upplýsingum um félagið og áttu í kjölfarið að skila inn óskuldbindandi tilboði. Hæstbjóðendum var boðið að taka þátt í síðara stigi ferlisins. Á því stigi var veittur aðgangur að gögnum til að framkvæma áreiðanleikakönnun. Tveir þátttakenda skiluðu inn tilboði 22. september en hvorugt var nærri því sem seljandi taldi eðlilegt kaupverð miðað við rekstur og afkomu verslunarmiðstöðvarinnar. Var þá ákveðið að hafna báðum tilboðum.

Verslunarmiðstöðin Smáralind var opnuð árið 2001 og er stærsta verslunarmiðstöð landsins, eða um 63.000 fermetrar, þar af rúmlega 40.000 fermetrar undir verslun og þjónustu. Heildarfjöldi verslana og þjónustufyrirtækja er 95 og á síðasta ári voru viðskiptavinir Smáralindar um 4 milljónir.