Snjallsorp við þrjár stærstu eignir Regins og það fjórða í framkvæmd

26.2.2024

Árið 2019 tók Reginn í notkun fyrsta snjallsorp félagsins á Hafnartorgi. Árið 2022 var svo tekið í notkun snjallsorp í Smáralind og um mitt ár 2023 bættist Katrínartún 2 í hóp eigna sem bjóða upp á þessa lausn. Snjallsorp í Egilshöll er nú í framkvæmd og stefnt er að opnun þess um mitt ár 2024.

Snjallsorp er snjallt sorpflokkunarkerfi sem Reginn hannaði með aukna hagkvæmni og fjárhagslegan ávinning af flokkun í huga. Snjallsorpstöðvarnar eiga það allar sameiginlegt að vigta sorp, skrá og flokka magn þess niður á leigutaka en hver og ein stöð er löguð að starfseminni á staðnum, umfangi sorps og skiptingu milli flokka. Upplýsingar hvers og eins leigutaka birtast síðan á þjónustuvef Regins og geta notendur þannig fengið ítarlegar upplýsingar um sína sorplosun og flokkun. Þetta gerir notendum meðal annars kleift að fylgjast með sorpflokkunarhlutfalli sínu og magni og bera saman árangur á milli mánaða og ára.

Lausnin hefur nú þegar sýnt fram á 23-37% aukningu í sorpflokkun og fagna notendur þess gegnsæi og auðveldri notkun og margir hafa orð á því að í fyrsta sinn sé sorp spennandi og sveipað jákvæðu yfirbragði.

Félagið er stolt af þessari lausn en innleiðing snjallsorps er liður í grænni vegferð Regins sem m.a. felst í fræðslu til leigutaka um mikilvægi flokkunar. Töluverður hluti kolefnisspors Regins kemur frá sorpi og er það félaginu því bæði ljúft og skylt að huga að lausnum og framþróun í þeim efnum.