Smáralind gefur Reykjavíkurborg Hafmeyju Nínu Sæmundsson

12.6.2014

Hafmeyjan, höggmynd eftir Nínu Sæmundsson, verður afhend Reykjavíkurborg í dag kl. 14:00 í Hljómskálagarðinum. Hún hefur staðið í Sumargarðinum fyrir utan Smáralind frá opnun hússins árið 2001.

Smáralind gefur Reykjavíkurborg styttuna í fyrirhugaðan höggmyndagarð tileinkaðan íslenskum myndlistarkonum. Í höggmyndagarðinum verða settar upp myndir eftir sex formæður íslenskrar höggmyndalistar, þær Gunnfríði Jónsdóttur, Nínu Sæmundsson, Tove Ólafsson, Þorbjörgu Pálsdóttur, Ólöfu Pálsdóttur og Gerði Helgadóttur. Verkin verða staðsett í suðvesturhorni Hljómskálagarðsins en Hafmeyjan mun standa í tjörninni

Hafmeyjan er önnur tveggja verka Nínu með sama nafni en hin stóð í Reykjavíkurtjörn og var sprengd upp á nýársnótt árið 1960 en þá hafði hún staðið þar í stuttan tíma. Stytta Smáralindar var keypt frá Bandaríkjunum en hún var í eigu fyrrum sambýliskonu Nínu. Styttan var afhjúpuð við opnun Smáralindar 2001.