Samningur um byggingu kvikmyndahúss undirritaður

14.2.2012

Í dag var skrifað undir verksamning við Sveinbjörn Sigurðsson hf.  um framkvæmdir við að ljúka byggingu kvikmyndahúss í Egilshöll, verðmæti samnings er um hálfur milljarður. Undirritun samningsins markar lok 9 mánaða undirbúningsvinnu við að koma verkefninu af stað á ný, en framkvæmdir við verkið stöðvuðust í október 2008 við þrot þáverandi eiganda, Borgarhallarinnar hf.

Með þessari framkvæmd er lagt þýðingarmikið lóð á vogarskálarnar við að efla atvinnu, en reikna má með að allt að 100 manns komi beint að verkinu þegar verkið stendur sem hæst í sumar.

Verklok eru áætluð 15. október á þessu ári en þá verður húsið afhent leigutaka, Sambíóunum, til umráða en þeir munu reka þar glæsilegt fjögurra sala kvikmyndahús með sæti fyrir um 900 gesti.