Reginn hf. gerir kauptilboð í hlutabréf í Eik fasteignafélagi hf.

Reginn hf. lagði í dag fram tilboð í 100% hlutafjár í Eik fasteignafélagi hf. Tilboðið nær til allra hluthafa þó þarf að lágmarki samþykki 68% eigenda hlutafjár í félaginu. Kauptilboðið miðast við að greitt verði fyrir allt hlutafé í félaginu með nýju hlutafé í Reginn hf., að nafnverði 603 m.kr., ef hluthafafundur Regins samþykkir kaupin. Gangi viðskiptin eftir og allt hlutafé í Eik fasteignafélagi hf. verði keypt mun það þýða að nýir eignarhlutir í Reginn hf. sem gefnir verða út vegna kaupanna munu nema u.þ.b. 32% af heildarhlutafé félagsins.
Kauptilboð byggir á að hver hlutur í Reginn hf. sé metinn á 13,53 sem er meðalgengi síðustu fimm viðskiptadaga og hver hlutur í Eik fasteignafélagi hf. sé metinn á 5,05.
Framangreind tilboðsfjárhæð er byggð á uppgjörsupplýsingum sem hafa verið birtar á árinu 2013, þ.e. ársreikningi 2012 og uppgjöri fyrsta og annars ársfjórðungs 2013. Ennfremur hefur tilboðsgjafi gefið sér eftirfarandi forsendur hvað varðar helstu lykiltölur í rekstri félagsins fyrir árið 2013:
· Leigutekjur félagsins verði um 1.900 m.kr. m.v. núverandi eignasafn (staða 30. júní 2013). Byggir þessi forsenda á hækkun leigutekna á fyrsta og öðrum ársfjórðungi milli áranna 2012 og 2013 samkvæmt kynntum uppgjörum fyrir sama tímabil 2013.
· Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar og afskriftir (EBITDA) verði amk. 1.450 m.kr.
· Langtímaskuldir félagsins séu ekki yfir 14.900 m.kr.
· Ekki er gert ráð fyrir að félagið SMI ehf. eða fasteignir í þess eigu séu meðal eigna félagsins við kaupin eða að skuldbindingar um þau kaup hafi verið gerðar.
Tilboðið sem gildir til kl. 16:00 þann 20. september n.k. er með fyrirvara um að tilboðsgjafi fái aðgang að öllum nauðsynlegum gögnum félagsins til að unnt verði að framkvæma lögfræðilega-, fjárhagslega-, tæknilega- og skattalega áreiðanleikakönnun á félaginu. Auk þess er tilboð þetta gert með fyrirvara um samþykki hluthafa Regins, eftirlitsaðila eins og Samkeppniseftirlitsins og að nýtt hlutafé verði skráð í Kauphöll. Ef af viðskiptunum verður þá er áætlað að þeim verði lokið fyrir áramót 2013/2014.