Sjálfbærni

Stefnur

Grænir leigusamningar

Bæklingar og skýrslur

Umhverfisvottanir fasteigna

Sjálfbærnistefna

Hafðu samband

Reginn hagnast um 3,9 milljarða á fyrsta ársfjórðungi - EBITDA hækkar um 11,2%

10.5.2024

8. maí sl. kynnti Halldór Benjamín Þorbergsson forstjóri Regins þriggja mánaða uppgjör á rafrænum kynningarfundi sem var sendur út í beinu streymi og má sjá með því að smella hér.

Árshlutareikning, tilkynningu um uppgjör, fjárfestakynningu og upptöku af kynningunni má nálgast á vef Regins með því að smella hér.

Helstu atriði þriggja mánaða uppgjörs

  • Rekstrartekjur voru 3,5 ma.kr. á fyrstu þremur mánuðum ársins og leigutekjur hækka um 8,9% frá fyrra ári.
  • EBITDA nam 2,4 ma.kr. og hækkar um 11,2%.
  • Hagnaður var 3,9 ma.kr. en nam 1,2 ma.kr. á sama tímabili í fyrra.
  • Fjárfestingaeignir voru bókfærðar á 188,9 ma.kr.
  • Matsbreyting fjárfestingaeigna nam um 5,2 ma.kr. á fyrstu þremur mánuðum ársins sem skýrist af hækkun verðlags og lækkun áhættulausra vaxta.
  • Handbært fé frá rekstri nam 1,4 ma.kr. og var handbært fé 2,8 ma.kr. í lok tímabils.
  • Vaxtaberandi skuldir voru 117,1 ma.kr. í lok tímabils.
  • Skuldahlutfall var 63,1% og eiginfjárhlutfall 31,1% í lok tímabils.
  • Hagnaður á hlut fyrir tímabilið nam 2,17 kr. en var 0,64 kr. á sama tíma í fyrra.

Helstu verkefni á fyrsta ársfjórðungi

Vinnu vegna endurmörkunar á vörumerki félagsins lauk á fyrsta ársfjórðungi eftir undirbúning undanfarin misseri. Farið var í ítarlega skoðun á breyttum þörfum félagsins með markaðsrannsóknum og aðkomu ráðgjafa. Mikilvægt var talið að endurskoða nafn og útlit vörumerkisins í þeim tilgangi að styðja við stefnu og markmið. Nýtt nafn félagsins er Heimar hf. Nafnabreytingin er með fyrirvara um samþykki hluthafafundar.

Þann 29. apríl 2024 var tilkynnt að stjórn Regins hefði ákveðið að afturkalla samrunatilkynningu félagsins vegna fyrirhugaðs samruna félagsins við Eik og að óskað hefði verið eftir heimild Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands til að falla frá valfrjálsu tilboði félagsins í allt hlutafé Eikar. Var það mat stjórnar að skilyrði tilboðsins um að handhafar að lágmarki 75% atkvæðaréttar Eikar samþykktu tilboðið myndi fyrirsjáanlega ekki nást áður en gildistími tilboðsins rynni út þann 21. maí 2024.

Heilsugæsla Norðurlands tók við húsnæði í Sunnuhlíð á Akureyri í febrúar 2024. Mikil ánægja er með nýtt húsnæði heilsugæslunnar og eru framkvæmdir nú í gangi vegna standsetningu annarra heilsutengdra rýma í Sunnuhlíð.