Reginn gerir samning við Þjóðminjasafnið

2.2.2016

Föstudaginn 22. janúar sl. fór fram undirritun samnings um varðveislu- og rannsóknasetur Þjóðminjasafns Íslands sem markar mikilvæg þáttaskil í þjóðminjavörslu á Íslandi. Viðstaddir voru fulltrúar Þjóðminjasafns Íslands og Regins fasteignafélags auk forsætisráðherra.

Í setrinu verða kjöraðstæður til varðveislu þjóðminja og vel búin starfsaðstaða til rannsókna, forvörslu, sýningaundirbúnings og kennslu á fagsviði Þjóðminjasafnsins sem er höfuðsafn á sviði menningarminja.

Húsnæðið, sem er að Tjarnarvöllum í Hafnarfirði, er 4.270  m² að stærð og fyrirhugað er að Þjóðminjasafnið taki það í notkun um mitt ár 2016. Hönnuður húsnæðis er ArkÞing.

Í húsinu verða öryggisgeymslur fyrir stóran hluta safnkosts Þjóðminjasafns og starfsaðstaða fyrir starfsmenn, sérfræðinga, fræðimenn og nemendur. Fullkomin hita- og rakastýring verður í öryggisgeymslum svo tryggja megi varðveislu viðkvæms safnkosts. Í húsnæðinu verða einnig rannsóknarstofur, forvörsluverkstæði, aðstaða til sérhæfðrar varðveislu og rannsókna jarðfundinna gripa og aðstaða til undirbúnings sýninga. Hluti safnkostsins verður áfram varðveittur í húsnæði safnsins í Kópavogi, þar sem Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni verður áfram til húsa.

Einnig verður í varðveislu- og rannsóknasetrinu aðstaða til kennslu en Þjóðminjasafn Íslands er háskólastofnun sem felur í sér mikilvægt hlutverk gagnvart rannsóknaraðilum og námsmönnum.