Sjálfbærni

Stefnur

Grænir leigusamningar

Bæklingar og skýrslur

Umhverfisvottanir fasteigna

Sjálfbærnistefna

Hafðu samband

Reginn fyrst íslenskra fasteignafélaga til að birta umgjörð um græna fjármögnun

31.3.2020
Reginn hefur, fyrst íslenskra fasteignafélaga, birt umgjörð um græna fjármögnun (Green Financing Framework) sem gerir félaginu m.a. kleift að gefa út græn skuldabréf.

Reginn hefur, fyrst íslenskra fasteignafélaga, birt umgjörð um græna fjármögnun (Green Financing Framework) sem gerir félaginu m.a. kleift að gefa út græn skuldabréf. Markmið með útgáfu umgjarðarinnar er að fjármagna umhverfisvænar fjárfestingar, umhverfisvottaðar fasteignir og önnur verkefni í samræmi við sjálfbærnistefnu félagsins.

„Útgáfa þessarar grænu umgjarðar er í fullu samræmi við metnaðarfulla sjálfbærnistefnu Regins þar sem lögð er áhersla á að samþætta Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun við rekstur félagsins.“ segir Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins.

Reginn hefur á undanförnum árum lagt aukna áherslu á umhverfismál og sjálfbærni í sínum rekstri og hefur félagið farið í ýmsar aðgerðir og verkefni með það að markmiði að minnka neikvæð umhverfisáhrif og auka umhverfisvitund.

Lykilþáttur í vegferð Regins í umhverfismálum var alþjóðleg umhverfisvottun Smáralindar í desember síðastliðnum, en Smáralind er fyrsta fasteignin á Íslandi sem hlýtur hina alþjóðlegu BREEAM In-Use umhverfisvottun. Félagið ætlar sér að vera leiðandi í umhverfisvottun fasteigna, þar sem fylgt er alþjóðlegum kröfum um umhverfisþætti, áhættustýringu og rekstur.

Umgjörð Regins nær til fimm verkefnaflokka sem allir hafa tengingu við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna en þeir eru grænar byggingar, endurnýtanleg orka, orkunýting, mengunarvarnir og umhverfisvænar samgöngur.

Græna umgjörðin hefur fengið óháð álit CICERO, miðstöðvar alþjóðlegra loftslags- og umhverfisrannsókna þar sem fjórir af fimm verkefnaflokkum Regins fengu hæstu einkunn CICERO eða „Dark Green“. Heildareinkunn umgjarðarinnar er „Medium Green“ og Reginn fær einkunnina „Good“ fyrir eftirlits- og stjórnkerfi innan fyrirtækisins.

Græna umgjörðin var unnin í samstarfi við Fossa markaði og byggir á svokölluðum „Green Bond Principles“ viðmiðum útgefnum af ICMA, Alþjóðasamtökum aðila á verðbréfamarkaði.

Grænu umgjörðina, ásamt áliti CICERO, má nálgast hér.