Ljósmyndasýningar á Hafnartorgi á Menningarnótt

18.8.2023

Ljósmyndasýningar á Hafnartorgi á Menningarnótt

Tvær sýningar verða á Hafnartorgi um helgina sem hluti af Menningarnótt og mun borgarstjóri opna þær formlega í dag, föstudag, kl 16:00 í sýningarrými annarar sýningarinnar sem er í rými Hafnartorgs Gallery næst Edition hotel. Hin sýningin er í sýnd skjáunum í stafræna sýningarsal veitingasvæðis Hafnartorgs Gallery.

Sýningarnar heita Til hafnar og Við gosið. Báðar tengjast sýningarnar eldgosinu á Heimaey árið 1973 en Vestmannaeyjabær var valinn af borgarráði Reykjavíkur sem heiðursgestur hátíðarinnar að þessu sinni í tilefni af 50 ára goslokaafmæli á árinu 2023 og langvarandi vinatengslum.
Til Hafnar
Hvorki fyrr né síðar hafa Vestmannaeyingar verið fluttir yfir hafið líkt og gert var aðfararnótt 23. janúar 1973. Allt að 80 skip og áhafnir sigldu með tæplega fimm þúsund íbúa til hafnar í Þorlákshöfn undir drunum og birtu frá eldgosinu á Heimaey. Þessa nótt urðu bátarnir líflína bæjarbúa. Á sýningunni hverfist sjóndeildarhringurinn um bátana og endurskapar þá sýn sem við höfum af hafinu og siglingum.
Sýningarstjórar: Joe Keys og Vala Pálsdóttir
Ávörp: Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja
Sýningin Til hafnar verður opin á eftirfarandi tímum:
Föstudagurinn 18. ágúst kl. 16:00 – 18:00
Laugardagurinn 19. ágúst kl. 12:00 – 17:00
Sunnudagurinn 20. ágúst kl. 12:00 – 15:00

Meira um sýninguna hér: https://www.hafnartorggallery.is/tilhafnar

Við gosið
Ljósmyndasýningin Við gosið, sem sýnir ljósmyndir Sigurgeirs Jónassonar, verður í Hafnartorgi Gallery. Sigurgeir myndaði gosið frá upphafi þess og þar til því lauk í júlí 1973. Um er að ræða valdar ljósmyndir Sigurgeirs af gosinu, þ.á.m. hina þekktu mynd af Landakirkju með eldhafið í baksýn. Það er vandasamt verk að velja úr safni Sigurgeirs, en eldgosamyndir hans hlaupa á þúsundum. Sýningin verður aðgengileg á opnunartímum Hafnartorgs Gallery fram til 3. september n.k.

Meira um sýninguna hér: https://www.hafnartorggallery.is/vidgosid