Sjálfbærni

Stefnur

Grænir leigusamningar

Bæklingar og skýrslur

Umhverfisvottanir fasteigna

Sjálfbærnistefna

Hafðu samband

Landsbankinn stofnar eignaumsýslufélög

14.2.2012

Landsbankinn hefur stofnað tvö dótturfélög um framkvæmd sértækra verkefna tengd annars vegar umbreytingu krafna bankans í hlutafé og hins vegar umsýslu með slíkt hlutafé að umbreytingu lokinni. Þetta er í samræmi við þær vinnureglur sem bankinn hefur sett sér ef til þess kemur að bankinn eignist hlutafé í hlutafélögum sem hluta af  endurskipulagningu viðskiptamanna bankans eða í kjölfar þess að bankinn gengur að veðum sínum í hlutafé fyrirtækja.

Í því skyni að tryggja gegnsæi slíkra umbreytinga, eignarhalds og ráðstöfunar eigna hefur bankinn stofnað dótturfélögin Reginn ehf. sem fara skal með eignarhald bankans á fasteignum eða hlutafé fasteignafélaga og Eignarhaldsfélagið Vestia ehf. sem fara skal með eignarhald bankans á hlutafé annarra rekstrarfélaga.

Félögin munu starfa í nánu samstarfi við fyrirtækja-, fjármála- og lögfræðisviði bankans að úrlausn þeirra viðfangsefna sem að þeim beinast. Félögin munu í því sambandi vinna náið með fyrirtækjasviði sem ber ábyrgð á stöðugreiningu, mati og tillögugerð varðandi aðgerðaþörf og skuldaskipulagningu fyrir viðskiptavini sem og fyrirtækjaráðgjöf bankans sem hefur með höndum þjónustu m.a. tengt sölu og skráningu félaga o.s.frv.

Stjórn félaganna verður skipuð aðilum úr framkvæmdastjórn bankans og er bankastjóri Landsbankans formaður stjórnar þeirra. Ákvarðanir um meðferð einstakra krafna og mögulega umbreytingu þeirra í hlutafé munu áfram verða á forræði lánanefndar bankans og mun ákvarðanatakan fara fram í samræmi við þær reglur sem bankinn hefur sett sér.

Jafnframt mun bankinn setja sér sérstakar vinnureglur um meðferð, umsýslu og ráðstöfun eignarhluta sem bankinn kann á eignast á grundvelli skuldaumbreytinga eða vegna fullnustugjörninga.  Mun í slíkum reglum verða lögð áhersla á að eignarhald bankans á slíkum eignarhlutum verði eins stutt og mögulegt er; að gegnsæis og jafnræðis verði gætt við ráðstöfun þeirra; og að bankinn leiti allra leiða í því skyni að hámarka endurheimtur sínar við ráðstöfun þessara eigna og þar með lágmarka þær afskriftir sem ella myndu lenda á bankanum.

Ráðinn hefur verið Helgi S. Gunnarsson sem framkvæmdastjóri Regins ehf. Helgi er M. Sc. í byggingaverkfræði frá DTU og byggingatæknifræðingur frá Tækniháskóla Íslands. Hann hefur starfað að verkefnastjórnun og umsjón byggingaframkvæmda um langt árabil, lengst af hjá VSÓ þar sem hann stýrði framkvæmdasviði. Helgi var um tíma framkvæmdastjóri Nýsis fasteigna ehf. en síðan framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélagsins Portusar hf.

Í starf framkvæmastjóra Eignarhaldsfélagsins Vestia ehf. hefur verið ráðinn Steinþór Baldursson. Steinþór er tölvunarfræðingur með BS gráðu frá Háskóla Íslands og viðskiptafræðingur með meistaragráðu í viðskiptum og stjórnun frá University of Southern California í Los Angeles. Steinþór hefur starfað á íslenskum fyrirtækja- og fjármálamarkaði síðan 1994 og hefur viðamikla reynslu á sviði fjármála, uppbyggingu og umbreytingum fyrirtækja bæði innanlands og erlendis.