Sjálfbærni

Stefnur

Grænir leigusamningar

Bæklingar og skýrslur

Umhverfisvottanir fasteigna

Sjálfbærnistefna

Hafðu samband

Framsækið margmiðlunarverk vígir stafrænt sýningarrými í Hafnartorgi Gallery

28.10.2022
4. nóvember næstkomandi verður frumflutt nýtt margmiðlunarverk eftir Högna Egilsson og karlssonwilker í Hafnartorg Gallery. Karlssonwilker er hönnunarstúdíó í New York sem Íslendingurinn Hjalti Karlsson stofnaði um síðustu aldamót. Á farsælum ferli hefur stúdíóið unnið með MoMA, Nintendo, Samsung, Puma, og Guggenheim og Rockefeller-sjóðunum svo fátt eitt sé nefnt.

4. nóvember næstkomandi verður frumflutt nýtt margmiðlunarverk eftir Högna Egilsson og karlssonwilker í Hafnartorg Gallery. Tónskáldið, söngvarinn og flytjandinn Högni Egilsson er vel kunnur fyrir störf sín með Hjaltalín, Gusgus og undir eigin nafni. Karlssonwilker er hönnunarstúdíó í New York sem Íslendingurinn Hjalti Karlsson stofnaði ásamt Jan Wilker um síðustu aldamót. Á farsælum ferli hefur stúdíóið unnið með MoMA, Nintendo, Samsung, Puma, og Guggenheim og Rockefeller-sjóðunum svo fátt eitt sé nefnt.

„Við höfum þekkt Högna lengi, eða frá því við unnum með Gusgus að plötunni Mexico árið 2010. Hann leitaði til okkar með þessa hugmynd fyrir nýtt stafrænt myndlistargallerí á Hafnartorgi og eftir nokkra spjallfundi og eftir að við höfðum skiptst á alls konar pælingum og hljóðbútum og vídeóefni þá fór þetta að koma saman með frekar lífrænum hætti,“ segir Hjalti.

Úr varð Óratorinn, nýtt margmiðlunarverk sem sækir innblástur til trúarathafna og leikhúss fyrri alda. Hér er harmleikurinn hamfarahlýnun: atburðarás sem við vitum öll alltof vel hvernig fer ef við grípum ekki til róttækra aðgerða. Sellórödd er í hlutverki óratorsins, en órator merkir framsögumaður. Hér er sellóið því eins konar sögumaður sem leiðir áheyrendur í gegnum ólík stig þess sem koma skal, „að óumflýjanlegum lyktum vorrar feigu veraldar“ eins og Högni orðar það. Kórus verksins eru svo níu verur sem minna á úlfa, goðsagnakenndar verur í nánu sambandi við náttúruna.

Dione Lee, sem fer fyrir hönnunarteyminu hjá karlssonwilker, segir að sjónrænn hluti verksins snúist mikið til um að segja sögu tiltekins landslags; hægfara breytinganna sem verða á því meðan verkinu vindur fram. Mikið sé því um hæverska jarðliti og lífræn form. Dione segir: „Það er magnað að vinna með listamanni sem maður treystir til fullnustu – og sem maður finnur að treystir þér sömuleiðis algjörlega. Tónlistin er enn að taka breytingum og það þýðir að myndræni heimurinn tekur sömuleiðis breytingum. Eins og veröldin sem verkið fjallar um, þá er þetta lifandi kerfi í stöðugri mótun, þar sem hver þáttur hefur áhrif á annan.“

Hafnartorg Gallery er nýtt upplifunarrými í hjarta miðborgarinnar, við gömlu höfnina í Reykjavík, steinsnar frá Listasafni Reykjavíkur og Hörpu og er þar að finna vandaðar verslanir, úrval af mat og drykk fyrir öll tækifæri auk menningartengdrar starfssemi. Ætlunin er að Hafnartorg Gallery verði í lykilhlutverki við að gefa fólki færi á njóta lífsins í miðborginni frá morgni til kvölds allt árið um kring. Níu stórir skjáir setja mark sitt á rýmið þannig að tala má um eins konar stafrænan sýningarsal. Óratorinn er fyrsta verkið sem er sýnt í Hafnartorgi Gallery en til framtíðar er ætlunin að vinna reglulega með hæfileikaríku listafólki hvaðanæva að úr heiminum að því að skapa og setja þar upp framsæknar listsýningar. Hér er því um nýsköpun að ræða í listmiðlun hérlendis. Það er okkur hjá Reginn og Hafnartorgi alveg sérstakur heiður að fá að opna sýningarsalinn formlega með svona heimsklassalistamönnum.

Óratorinn er frumfluttur með lifandi tónlistarflutningi Högna sjálfs á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni 4. nóvember kl. 17:00. Aðrir tónleikar fara einnig fram degi síðar, laugardaginn 5. nóvember, kl. 17:00. Aðgangur er ókeypis. Myndverkið öðlast að því loknu eigið líf og verður sýnt reglulega á Hafnartorgi allt til ársloka. Framhaldssýningarnar verða auglýstar sérstaklega.