Breytingar á skipulagi - nýtt skipurit
Tekin hefur verið ákvörðun um að breyta stjórnskipulagi hjá Regin hf. og felst hún í eftirfarandi:
Ákveðið hefur verið að ganga til samninga við ISS Ísland ehf. um yfirtöku á meginhluta þeirra rekstrarþátta sem Fasteignaumsýsla Regins hefur sinnt. Um er að ræða stoð- og þjónustustarfsemi sem tilheyrir Smáralind og Egilshöll s.s. ræstingar og þrif, sorp og förgun, þjónustuborð, öryggismál, hús- og baðvarsla ásamt rekstri og hluta viðhalds fasteigna auk orkustýringar. Ekki er gert ráð fyrir að ráðstöfun þessi hafi umtalsverð áhrif á afkomu Regins hf. Hinsvegar er gert ráð fyrir bættri kostnaðarstýringu og stöðugra þjónustustigi. Starfsmönnum samstæðunnar mun fækka verulega þar sem gert er ráð fyrir að núverandi starfsmenn sem sinna þessum verkefnum flytjist yfir til ISS Íslands ehf. Þessi breyting mun einnig skapa aukið svigrúm fyrir stjórnendur Regins hf. og dótturfélaga til að einbeita sér að kjarnastarfsemi félagsins sem og starfsemi innan afkomueininga.
Reginn hf. tilkynnir samhliða nýtt stjórnskipulag félagsins sem og mannabreytingar í stjórnendateymi félagsins sem taka gildi 1. febrúar nk.
- Nýr framkvæmdastjóri Regins Atvinnuhúsnæði ehf.: Páll V. Bjarnason (34), byggingaverkfræðingur, MSc. mun taka við þeirri stöðu. Jafnframt mun Páll stýra og bera ábyrgð á þeim verkefnum sem flytjast frá Fasteignaumsýslu Regins, en Páll hefur verið sviðsstjóri þess sviðs í tæp tvö ár.
- Útleigustarfsemi félagsins verður færð undir sérstakt svið þ.e. „Útleigusvið“. Hlutverk sviðsins verður að hafa nákvæma yfirsýn yfir stöðu útleigu hverju sinni. Gera og viðhalda útleiguáætlun fyrir félagið, framkvæma nauðsynlegar markaðsgreiningar og kynningar auk þess að annast útleigu á lausum rýmum. Sviðsstjóri verður Rúnar Hermannsson Bridde (36), viðskiptafræðingur en Rúnar hefur stýrt leiguteymi félagsins í eitt og hálft ár.
- Stjórnunareiningu „Upplýsingar og greiningar“ verður komið á fót og hefur sú eining það hlutverk að efla og bæta vinnslu, greiningu og framsetningu upplýsinga sem og miðlun upplýsinga innan félagsins. Ennfremur að hafa yfirumsjón með upplýsinga- og fjarskiptakerfum félagsins þ.e. vef, tölvukerfi, miðlun í gegnum samfélagsmiðla o.s.frv. Björn Eyþór Benediktsson (30), BS í byggingaverkfræði og fjármálahagfræðingur M.Sc mun stýra þeirri einingu en Eyþór hefur starfað hjá félaginu í eitt og hálft ár við greiningar, upplýsingavinnslu og þátttöku í viðskiptaþróun.
- Yfirmaður reikningshalds verður Guðlaug Hauksdóttir (43), viðskiptafræðingur. Guðlaug hefur starfað hjá Regin hf. í rúmlega fimm ár sem sérfræðingur á fjármálasviði félagsins.