Sjálfbærni

Stefnur

Grænir leigusamningar

Bæklingar og skýrslur

Umhverfisvottanir fasteigna

Sjálfbærnistefna

Hafðu samband

BREEAM In-Use vottun Egilshallar

15.6.2023

Egilshöll hlaut á dögunum BREEAM In-Use vottun með einkunnina „Very good“. Með vottun Egilshallar er nú um 36% af eignasafni Regins umhverfisvottað, en ásamt Egilshöll hafa Smáralind, Katrínartún 2 og Borgartún 8-16 hlotið BREEAM In-Use vottun.

BREEAM In-Use vottun er staðfesting þriðja aðila á að bestu stöðlum og kröfum sé fylgt í rekstri fasteigna. Vottunin er hönnuð til að meta og draga úr umhverfisáhrifum og bæta rekstur atvinnuhúsnæðis á hagkvæman og áhættulítinn hátt. Umhverfisvottun fasteigna auðveldar upplýsingagjöf til leigutaka um rekstrarþætti eins og orku og sorpflokkun sem æ meiri eftirspurn er eftir.

Ferli BREEAM In-Use vottunar er langt og strangt en einungis 5% bygginga sem sækja um vottun fá úttektina samþykkta. Við hjá Regin erum því virkilega stolt af þessari vottun sem er í fullu samræmi við sjáfbærnistefnu félagsins sem m.a. felur í sér að félagið ætlar að vera leiðandi í umhverfisvottun fasteigna, þar sem fylgt er alþjóðlegum kröfum um umhverfisþætti, áhættustýringu og rekstur.

Umhverfisvottun sem þessi styður að auki við markmið félagsins um græna fjármögnun, en í kjölfar BREEAM In-Use vottunar Egilshallar nemur umgjörð um græna fjármögnun 63 ma.kr. Reginn gaf út tvo nýja græna skuldabréfaflokka þann 1. júní 2023 og er græn fjármögnun um 39% af heildarfjármögnun félagsins í kjölfar útboðsins.