Sjálfbærni

Stefnur

Grænir leigusamningar

Bæklingar og skýrslur

Umhverfisvottanir fasteigna

Sjálfbærnistefna

Hafðu samband

Árshlutareikningur Regins fyrstu níu mánuði ársins 2013

29.11.2013

Árshlutareikningur Regins hf. 1. janúar til 30. september 2013 var samþykktur af stjórn þann 28. nóvember.

  • Rekstrartekjur námu 2.973 milljón króna.
  • Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir var 1.833 milljónir króna.
  • Hagnaður eftir  tekjuskatt nam 1.091 milljónum króna.
  • Fjárfestingareignir voru metnar á 36.903 milljónir króna
  • Vaxtaberandi skuldir voru 23.574  milljónir króna í lok tímabilsins samanborið við 19.297 milljónir kr. við árslok 2012.
  • Handbært fé frá rekstri nam 1.116 milljónum króna.
  • Eiginfjárhlutfall er 32%.
  • Hagnaður á hlut var 0,84 samanborðið við 1,04 árið áður.

 Félagið er skráð í Kauphöll Íslands (NASDAQ OMX Iceland hf.) Fjöldi hluthafa við lok september er 636.

Rekstur og afkoma

Afkoma Regins á fyrri helming ársins 2013 var góð og í samræmi við áætlun félagsins. Rekstrartekjur námu 2.973 milljón króna og þar af námu leigutekjur 2.590 milljónum króna. Hækkun leigutekna frá sama tímabili fyrra árs eru um 25%. Rekstrarhagnaður fyrir söluhagnað, matsbreytingu og afskriftir nam 1.833 milljónum króna eða sem nemur 72% af leigutekjum sem er í samræmi við markmið félagsins. Rekstrarhagnaður hefur aukist um 27% samanborið við sama tímabil 2012.

Eignasafn og efnahagur

Eignasafn Regins samanstendur af fullgerðu atvinnuhúsnæði með háu útleiguhlutfalli og traustum leigutökum. Í lok september 2013 átti Reginn 45 fasteignir. Heildarfermetrafjöldi fasteignasafnsins var 192 þúsund fermetrar og þar af voru 172 þúsund útleigjanlegir fermetrar. Útleiguhlutfall fasteignasafnsins var 98% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi. Stærstu eignir Regins eru verslunarmiðstöðin Smáralind í Kópavogi og Egilshöll í Grafarvogi.

Fasteignasafn Regins er metið á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Safnið er metið í lok hvers uppgjörtímabils í tengslum við gerð árshluta og ársreiknings og við matið er stuðst við núvirt framtíðar sjóðsflæði einstakra eigna. Matsbreyting á tímabilinu er 845 milljónir króna.

Stækkun félagsins og horfur

Í febrúar 2013 var gerð breyting á fjárfestingastefnu félagsins, lögð var frekari áhersla á sterkt eigið fé,  skýra arðsemiskröfu og öryggi í fjárfestingum.  Í markmiðum  félagsins er gert ráð fyrir að eignasafn félagsins allt að tvöfaldist á næstu fimm árum.

Frá hausti 2012 hefur verið unnið að stækkun og styrkingu á eignasafni félagsins. Á því tímabili hafa verið gerðir samningar um kaup á fimm minni fasteignafélögum og þremur fasteignum.  Þessi kaup sem öll eru í samræmi við fjárfestingastefnu félagsins, styrkja tekjugrunn og bæta arðsemi og afkomu.  Ekki hefur þurft að auka eigið fé félagsins við þessi kaup og er eiginfjárhlutfall 32% að kaupum loknum. Þann 17. nóvember tilkynnti Reginn um samkomulag um kaup félagsins á Klasa fasteignum ehf. Gangi þau kaup eftir verður fjöldi fasteigna í eigu félagsins 54 og heildarfermetrafjöldi um 220 þús. m2.

Stjórnendur félagsins telja að horfur í rekstri séu góðar og engar vísbendingar eru um annað en að áætlanir félagsins standist.

Kynning

Samhliða birtingu á þessu uppgjöri boðar Reginn til opins kynningarfundar fimmtudaginn 28. nóvember kl. 16:30 í Austurstræti 16, gamla Reykjavíkurapóteki þar sem Helgi S. Gunnarsson, forstjóri félagsins mun kynna afkomu þriðja ársfjórðungs 2013. Skráning á kynningarfundinn fer fram í gegnum netfangið fjarfestatengsl@reginn.is.

Fundinum verður einnig varpað í gegnum netið á eftirfarandi slóð http://streymi.nyherji.is/Mediasite/Play/8233725aadbe42d6ad5d06eca75287611d

Um félagið

Reginn hf. er íslenskt fasteignafélag sem fjárfestir í, leigir út og annast rekstur á atvinnuhúsnæði. Félagið er hlutafélag í dreifðu eignarhaldi og skráð í Kauphöll Íslands (NASDAQ OMX Iceland hf.). Félagið tók til starfa vorið 2009.

Hægt er að nálgast árshlutareikning þriðja ársfjórðungs og kynningagögn á  www.reginn.is/fjarfestar/