Sjálfbærni

Stefnur

Grænir leigusamningar

Bæklingar og skýrslur

Umhverfisvottanir fasteigna

Sjálfbærnistefna

Hafðu samband

Afkoma Regins ehf. á fyrri helmingi ársins 2011

14.2.2012

Hagnaður Regins ehf. fyrstu 6 mánuði ársins 2011 nam 66 milljónum króna samanborið við 48 milljóna króna hagnað á sama tímabili árið 2010. Félagið hefur stækkað mikið á milli ára en eignsafn þess um mitt ár 2010 var 23 milljarðar króna samanborið við 34 milljarða króna um mitt ár 2011.

Rekstrarreikningur og efnahagsreikningur þann 30. júní 2011 hefur verið staðfestur af stjórn félagsins.

Rekstur og efnahagur

Rekstrartekjur félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins 2011 námu 1.411 milljónum króna samanborið við 965 milljónir króna fyrir sama tímabil árið 2010. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði nam 727 milljónum króna samanborið við 336 milljónir króna fyrir sama tímabil árið 2010. Hækkun á veltu milli ára skýrist af stærra eignasafni.

Félagið skilar hagnaði á fyrri helmingi ársins 2011 þrátt fyrir háa verðbólgu á tímabilinu en félagið er að mestu leyti fjármagnað með verðtryggðum íslenskum lánum. Fjármagnsgjöld voru 697 milljónir króna á fyrri árshelmingi  2011 samanborið við 262 milljónir króna fyrir sama tímabil árið áður. Í júnílok var eigið fé félagsins rúmlega 4,5 milljarðar króna af 34,1 milljarða króna heildareignum eða rúm 13%.

Framkvæmdir á vegum Regins hafa verið umfangsmiklar á árinu. Endurbygging á fasteigninni Suðurlandsbraut 14 hefur staðið yfir, en í sumar opnaði Íslandsbanki nýtt útibú og skrifstofur í húsinu. Í Vetrargarðinum í Smáralind standa yfir framkvæmdir en þar verður opnaður innanhússskemmtigarður í haust. Framkvæmdir við 22 brauta keilusal ásamt veitingastöðum munu hefjast með haustinu á 1. hæð Egilshallar. Leigutaki er  dótturfélag Keiluhallarinnar ehf.

Reginn hefur á árinu og undir lok síðasta árs selt sex fasteignir og er söluverðmæti þeirra um 1,5 milljarðar króna.

Í tengslum við fyrirhugaða skráningu er unnið að breytingu á samsetningu eignasafns félagsins sem og fjárhagsskipan þess þannig að eigið fé félagsins verði styrkt.

Starfsemi Regins

Reginn ehf. er öflugt fasteignafélag og eigandi að mörgum af helstu fasteignum höfuðborgarsvæðisins eins og Smáralind, Egilshöll, Laugum í Laugardal og Bíldshöfða 9, auk þróunarverkefna. Eignasafn félagsins þann 30. júní 2011 hefur á að skipa 58 fasteignum og 13 þróunarverkefnum í formi lóða eða mannvirkja í byggingu.

  • Heildarstærðir bygginga 221.400 m2
  • Stærðir lóða og þróunarsvæða 310.000 m2

Meðal leigutaka eru: Reykjavíkurborg, Hagar, Bónus, Kaupás, Pizza- Pizza, Sambíóin, Sena, Penninn / Eymundsson, Landsbankinn, Íslandsbanki, Laugar, RARIK, Ísafoldarprentsmiðja, Marorka,  auk fleiri öflugra leigutaka.

Frá stofnun Regins árið 2009 hefur félagið stækkað ört og er eignasafn þess nú eitt af verðmætari fasteignasöfnum landsins. Eignir eru að mestu í útleigu auk þess sem safnið inniheldur þróunareignir.

Eigandi Regins ehf., Landsbankinn hf., hefur ákveðið að stefnt skuli að því að skrá félagið í Kauphöll Íslands (NASDAQ OMX Ísland) og er undirbúningur að skráningu þegar hafinn. Stefnt er að skráningu Regins á fyrri hluta ársins 2012.

Um félagið

Reginn ehf. er einkahlutafélag í eigu Landsbankans hf. Félagið tók til starfa vorið 2009 og er ætlað að fara með eignarhald á þeim fasteignum og fasteignafélögum sem bankinn eignast í kjölfar fullnustuaðgerða eða annars konar skuldaskila. Tilgangur félagsins er að annast umsýslu og rekstur fasteigna og fasteignafélaga. Í því felst  að félagið leigir út, kaupir og selur fasteignir. Reginn vinnur auk þess að uppbyggingu og þróun einstakra fasteignaverkefna. Félagið á dótturfélög sem sérhæfa sig í ákveðnum tegundum fasteigna svo sem atvinnuhúsnæði, íbúðarhúsnæði og þróunarverkefnum.

Fréttatilkynning um afkomu Regins ehf.