Sjálfbærni

Stefnur

Grænir leigusamningar

Bæklingar og skýrslur

Umhverfisvottanir fasteigna

Hafðu samband

Heimar styðja íslenska tungu

16.11.2024

Í dag, á degi íslenskrar tungu, setjum við hjá Heimum í loftið glænýtt og ótrúlega skemmtilegt verkefni sem hefur fengið nafnið Orðheimar.

Orðheimar er samfélagsverkefni Heima og fyrsta skrefið í nýrri vegferð félagsins þar sem við munum styðja og styrkja íslenska tungu á ýmsa vegu.

Við vitum að íslenskan á undir högg að sækja og sumir vilja jafnvel ganga svo langt að segja að okkar ástkæra, ylhýra berjist fyrir lífi sínu. Með Orðheimum viljum við auka málvitund, leika okkur að málinu og styrkja íslenskuna vítt og breitt um samfélagið.

Í þessum fyrsta fasa er verkefnið skýrt og afmarkað. Við ætlum einfaldlega að bæta orðaforða þjóðarinnar, bæði þeirra sem fæddust hér og þeirra sem flutt hafa til landsins. Á íslensku eigum við ótal orð yfir sömu hlutina, en mörg þeirra eru ýmist lítið notuð eða hreinlega gleymd og grafin í orðabókum. Við viljum rifja þau upp, enda er ríkt og lifandi tungumál undirstaða góðra samskipta, skilnings og heilbrigðs samfélags. Með því að styrkja stoðir tungumálsins erum við að fjárfesta í framtíð íslenskunnar og þjóðarinnar allrar, ekki bara á degi íslenskrar tungu heldur til frambúðar.

Ef þið rekist á Morgunblaðið í dag finnið þið þar skemmtilega opnuauglýsingu í formi krossgátu um verkefnið frá okkur, en að auki birtum við auglýsingar á samfélagsmiðlum, í útvarpi, á vefmiðlum og skjám. Þá merkjum við kjarnana okkar, Smáralind, Hafnartorg og Egilshöll, með skemmtilegum límmiðum þar sem við sýnum fólki óalgeng nöfn þeirra hluta sem miðarnir eru á og vísum á samheiti þeirra.

Í þessum fyrsta fasa viljum við segja með skýrum hætti að Heimar hyggist styðja við íslenska tungu til frambúðar. Til hamingju með daginn og áfram íslenska!