Góð afkoma Smáralindar 2011

22.3.2012

Afkoma Smáralindar á árinu 2011 var jákvæð um  1,034 milljónir, sem er verulegur viðsnúningur í rekstri frá árinu 2010.

Afkoma Smáralindar á árinu 2011 var jákvæð um  1,034 milljónir, sem er verulegur viðsnúningur í rekstri frá árinu 2010.  Tekjur félagsins jukust á árinu og verulegur árangur náðist í hagræðingu í rekstri félagsins.  Á árinu 2011 var félagið endurfjármagnað með verðtryggðum lánum frá Landsbanka og Íslandsbanka og öll erlend lán félagsins, ásamt skuldabréfaflokki  í Kauphöllinni greidd upp.

Fjárfestingar Smáralindar á árinu  2011 voru 198 milljónir.  Eignasafn félagsins var endurmetið um áramótin í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla.  Matið tekur mið af sjóðstreymislíkani og tekið er tillit til tilboða sem bárust í eignir félagsins árið 2010.  Niðurstöður endurmats voru þær að gerð var matsbreyting fjárfestingaeigna sem nam 697 milljónir á árinu. Helstu ástæður matsbreytingar er hagstæðari fjármögnun og sterkari tekjustreymi.  Um síðustu  áramót  var eigið fé félagsins aukið um 3 ma. og er eiginfjárhlutfall  Smáralindar í árslok 40%.  Enginn arður verður greiddur  til eigenda Smáralindar á þessu ári. Lausafjárstaða Smáralindar er mjög sterk og munu eigendur Smáralindar nýta sér sterka fjárhagsstöðu til frekari uppbyggingar á verslunarmiðstöðinni.

Allt frá því að fasteignafélagið  Reginn tók við rekstri Smáralindar hefur verið unnið skipulega að hagræðingaraðgerðum í rekstri Smáralindar til að efla og styrkja reksturinn.  Markvisst hefur verið unnið í því að styrkja grundvöll rekstrar verslunareigenda í Smáralind og hefur verið blásið til sóknar í markaðsmálum til að styrkja Smáralind enn frekar á markaði.  Þar má nefna  til dæmis uppbygging á glæsilegum Skemmtigarði þar sem áður var Vetrargarður Smáralindar  ásamt fjölgun á sterkum verslunum eins og  Epli.is , Lindex ofl.  Allir þessir þættir hafa styrkt stöðu Smáralindar verulega. Öll leigurými í verslunarmiðstöðinni eru í útleigu og eftirspurn eftir  leigurýmum hefur aukist verulega.  Fjölgun gesta í Smáralind hefur vaxið jafnt og þétt og er aukning gesta um 12% það sem af er árinu 2012 miðað við árið 2011.  Áfram verður unnið skipulega að uppbyggingu Smáralindar með því að styrkja  fjölbreytileika verslana í verslunarmiðstöðinni.